Direct Alpine Guide iceland

Umsögn um Direct Alpine Guide 3ja laga regnjakkann

     Í stuttu máli virðist Direct Alpine Guide jakkinn ansi útpældur og vel hannaður regnjakki, með mjög mikla öndunareiginleika og vatnsheldni og góðann hreyfanleika. Hann hentar mjög vel í aðstæður þar sem maður vill ekki eða getur ekki tekið sífelld fatastopp eftir aðstæðum, því öndunin er það góð. Hægt að fara bara í hann og gleyma því. Hannaður og framleiddur í Tékklandi.

     Ég myndi mæla með þessum jakka í flesta útivist sem felur í sér mikla hreyfingu í misjöfnu veðri, t.d. kraftmiklar gönguferðir, hjólreiðar, skíði og ísklifur. Ég myndi síður vilja útsetja hann fyrir miklum núning við hraun eða hvasst grjót eins og gæti gerst í klettaklifri, vegna þess að hlutar efnisins í jakkanum eru frekar þunnir.

Heildareinkunn
4.5/5
Vatnsheldni/öndun
5/5
Gæði og frágangur
4.5/5
Eiginleikar og hönnun
4.5/5
Þyngd og stærð
4/5

Samkeppnin í útivistarfatnaði er ansi hörð í dag, ekki síst þegar kemur að skeljum, þ.e. óeinangruðum flíkum með vatnshelda öndunarfilmu. Úrvalið er algjör frumskógur, og jafnvel bara mismunandi tegundir vatnsheldra öndunarfilma eru orðnar fleiri en auðvelt er að halda reiður á. Í þessum verðflokki er ágætt úrval af nokkuð góðum regnjökkum, en líklega er erfitt að finna regnjakka í dag sem er ekki að minnsta kosti þokkalegur.

Framleiðendur keppast við að henda fram einhverjum tölum yfir öndunina og vatnsheldnina til að sýna fram á að þeirra vara sé best. Ég hef alltaf verið frekar efins um slíkar tölur, mæliaðferðirnar eru ekki staðlaðar svo ég viti til, og ég átta mig ekkert á því hvað það þýðir fyrir mig í raunveruleikanum að að vatnsheldnin sé svo og svo mörg þúsund millimetrar eða öndunin einhverjar þúsundir af einhverju öðru.

Öndunarfilmur eru i rauninni ekki annað en örþunnar filmur úr einhverjum plastefnum, með pinkulítil göt sem eru það lítil að fljótandi vatn kemst ekki í gegn vegna yfirborðsspennu þess, en vatn í gufuformi kemst í gegn. Guide jakkinn byggir á filmu sem heitir GELANOTS HB™, sem er framleidd af Toyota. Gelanots fylgir þeirri þróun í öndunarfilmum að hafa miklu minni göt á filmunni, miklu þéttar. Þeir lofa 20’000mm vatnsheldni og öndun uppá 39’000g/m^2/24klst, eða 39 kíló af vatnsgufu á hvern fermeter af efni á sólarhring. Það eru ekkert smá háar tölur, en hvað þýðir það fyrir þann sem er í jakkanum uppá fjöllum að skíða, príla og puða?

3ja laga regnjakki

Eiginleikar, hönnun og smáatriði 

Þeir sem hönnuðu þennan jakka virðast hafa mikla reynslu af því að vera í regnjakka á fjöllum, og hafa pælt ansi mikið í því hvar og hvernig sé best að hafa hlutina svo þeir virki. Það eru ákveðin atriði sem eru mjög vel útfærð, og önnur sem eru áhugaverð en höfða ekki til mín. Útlitið í heild finnst mér mjög skemmtilegt, ekki neongrænt eða bleikt eins og er tískan í dag, heldur klassískara fjallamennsku útlit.

Vatnsheldni/Öndun 

Það fyrsta sem ég gerði í þessum jakka var að fara í honum út að hjóla innanbæjar. Ég hjólaði af talsverðum krafti og sprengdi mig til að reyna að byggja upp svita til að prófa öndunina, en náði aldrei að finnast ég vera orðinn eitthvað sveittur. Eftir þessa tilraun kom ég inn heima hjá mér beint af hjólinu, ennþá í jakkanum alveg renndum upp og með lokað í handarkrikunum og fékk mér vatnsglas og beið í smá stund í von um að það færi að byggjast upp raki undir jakkanum, en ekkert gerðist. Ég fann bara smá raka undir höndunum í ullarbolnum sem ég var í, en ekkert meira en það.

Ég hef aldrei verið hrifinn af regnjökkum og aldrei fundist svona öndunarjakkar anda nógu mikið, yfirleitt forðast ég að vera í þeim nema það sé beinlínis demba. Maður þarf ekki að hafa verið lengi í útivist á Íslandi til að þekkja hvernig hér geta skiptst á skin og skúrir svo maður hefur varla undan að klæða sig úr og í. Yfirleitt hef ég notað jakka með vinsælustu öndunarfilmunum og frá virtustu framleiðendunum, og alltaf fundist ég samt verða þvalur í þeim. 

En það sem skiptir auðvitað ennþá meira máli í regnjakka heldur en öndunin er vatnsheldnin. Þegar öndunin er svona mikil er eðlilegt að maður spyrji sig hvort vatnsheldnin sé einhver. Þó ég hafi notað jakkann í flestum þeim veðrabrigðum sem Íslensk náttúra býður uppá var ég ekki ennþá sannfærður um að hann væri 100% vatnsheldur, þannig að ég fór með hann í sturtuklefann, hélt í hettuna, ermarnar og hornin á jakkanum til að gera úr honum einskonar poka, og fyllti hann svo af vatni.

Rennilásarnir í handarkrikunum voru lokaðir, en það dropaði aðeins þar í gegnum endann á þeim, en annarstaðar á innra byrðinu mynduðust ekki einusinni litlir dropar, ekki einusinni á saumum og samskeytum. Efnið sjálft hefur reynst alveg vatnshelt, og frágangurinn nógu góður til að viðhalda því. Þessi tilraun var gerð eftir talsverða notkun í næstum hálft ár, og reynir mest á bakhluta jakkans þar sem ég hef yfirleitt verið með bakpoka sem nuddast þar við og eyðir upp efninu. Þess vegna varð ég nokkuð hrifinn.

Þó er gott að skilja smáatriðin á bakvið öndun og vatnsheldni. Hluti af virkninni felst í því að á svona jökkum er svokölluð DWR (durable water repellent) vatnsfráhrindandi húðun sem lætur vatnið safnast í dropa og renna af frekar en að bleyta ysta lagið. Þessi húðun endist mis lengi eftir framleiðendum og gerðum, en aldrei að eilífu. Þegar húðunin er farin af fara ystu lög regnjakkanna að draga í sig vatn. Þó innri vatnshelda filman sé 100% vatnsheld dregur mjög úr önduninni þegar ysta lagið er alveg blautt. Þetta gildir um alla svona nútíma regnjakka. Til þess að viðhalda öndunareiginleikunum er því mikilvægt að þvo svona regnjakka reglulega með þeim efnum sem framleiðendurnir mæla með, til að hreinsa öndunarfilmuna og endurnýja vatnsfráhrindandi húðunina.

Gæði og frágangur

Í þessum verðflokki býst maður við talsverðum gæðum, og flík sem er gerð af vandvirkni og natni. Allir saumar eru teipaðir og frágangur á rennilásum er eins góður og maður býst við. Rennilásarnir eru af vatnsheldri gerð þannig að það rignir ekki í gegnum þá, en ekki þannig að þeir þoli að vera ofaní vatni.

Sjálft efnið er nokkuð þunnt. Þetta er eflaust hluti af öndunargetu jakkans. Ef maður er ekki að renna sér eftir hrauni myndi ég ekki hafa áhyggjur af því. Í heildina flottur frágangur og virðist vera saumaður af mikilli natni. Jakkinn er hannaður og búinn til í Tékklandi.

Þyngd og stærð

Sama hvað hann andar vill maður ekkert alltaf vera í honum, þá er mikilvægt að jakkinn sé ekki þungur eða fyrirferðarmikill í bakpokanum. Þyngdin er í kringum 450 grömm þannig að þetta er ekki léttasti jakkinn á markaðnum, en líklega með þeim léttari sem eru með rennilása undir höndunum. Ef maður rúllar honum þétt saman verður hann ótrúlega lítill, eða umþb. mitt á milli 0,5 L áldósar og 1.0L Nalgínu. Fyrir jakka með þetta mörgum rennilásum er það ansi gott.

3ja laga skeljakki

 

Aðalatriði:

– Eðlilega er engin fyrirstaða að hreyfa hendurnar eins og maður vill í þessum jakka, og hann helst vel á sínum stað hvað sem maður sveiflar þeim og hamast. 

– Hettan passar yfir klifurhjálm, og ólíkt mörgum öðrum jökkum sem ég hef prófað er vel hægt að horfa til hliðanna

– Rennilásarnir undir höndunum eru með tvo sleða, þannig að það er hægt að opna þá neðan frá og ofan frá. Að neðanverðu er rennilásinn nokkuð framarlega á manni, þannig að það er mjög auðvelt að komast í hann þó maður sé með bakpoka.

– Svörtu stykkin á jakkanum eru úr þykkara efni, styrkingar á öxlum undir bakpokaólunum og vasanum framaná. Hitt efnið er ótrúlega þunnt, það er eflaust hluti af gífurlegri önduninni.

Aukaatriði

– Rennilásinn framaná er líka með tvo sleða, þannig að það er hægt að opna örlítið neðanfrá þó jakkinn sé renndur alla leið upp. Mjög þæginlegur fítus ef náttúran kallar í vondu veðri og ef maður er með klifur- eða jöklabelti á sér.

– Litlar lykkjur neðarlega á ermunum til að krækja vettlingum í svo þeir týnist ekki.

– Teygjurnar eru á þeim stöðum sem maður býst við, en það tók mig smá stund að fatta klemmurnar sem halda þeim. Einföld og flott hönnun samt, sýnist að þær muni ekki brotna svo auðveldlega.

– 3 vasar, á á vinstri brjóstkassa utaná, á hægri brjóstkassa innaná, og á vinstri upphandlegg.

– Ég hef aldrei alveg fattað þessa lokun yfir andlitið en kannski kemur þetta sér vel einhverntíman. Það er auðvelt að renna samt bara jafn hátt upp og mann langar, skapar engin vandamál, og hægt að renna yfir nefið ef maður vill.

– Á hettunni er der sem er mjög stórt og úr mjúku efni, hef lent í því að fá það fyrir augun þegar ég er að hjóla. Virkar ágætlega í rigningu og logni, en getur verið óþæginlegt í mótvindi.

– Jakkinn er svolítið síðari yfir rassinn en að framan, og svolítið síðari yfir handarbökin en lófann. Virkar mjög vel.

Í heildina er þetta ótrúlega þæginlegur og vel hannaður jakki, og er orðinn minn „go-to” jakki í allt milli ísklifurs, jöklagöngum með ferðamenn, skíðaferða og hjólandi. Það er alltaf skítaveður ú, en yfirleitt þokkalegt veður inní þessum jakka.

Skrifað af Karli Birki sem hefur starfað í björgunarsveit, vinnur sem jöklaleiðsögumaður ásamt fjölbreyttri útivist á eigin vegum í fjöldamörg ár.

Ýttu hér til að versla jakkann

Þessi jakki var gjöf frá Ganglera Outfitters til prófunar og umsagnar

Myndir eftir Vaidas Valentukevicius