
Umsögn um Direct Alpine Cascade Lady Göngubuxurnar
Direct Alpine Cascade Buxurnar eru frá tékkneska útivistarmerkinu Direct Alpine og voru gjöf frá Gangleri Outfitters.
Direct Alpine er tékkneskt fyrirtæki sem framleiðir útivistarfatnað og fylgihluti. Framleiðsla þeirra fer einungis fram í löndum sem hafa strangar reglugerðir er varða umhverfið. Nánast öll framleiðsla eða um 99% fer fram í Evrópu og þá fyrst og fremst í Tékklandi. Fyrirtækið sjálft hefur mjög skýra umhverfisstefnu sem má lesa nánar um hér: https://www.directalpine.com/ecology-sustainable-development.
Buxurnar eru úr léttu, mjúku og teygjanlegu efni.
https://outfitters.is/product/direct-alpine-cascade-plus-gongubuxur-domu/
Rannveig Anna (Hæð: 165 cm). Ég prófaði kvk útgáfuna af buxunum í bláum lit en mæli jafnframt með að máta kk útgáfuna þar sem hún er ekki síður þægileg en sniðin eru ekki alveg eins. Ég tók M í kvk útgáfunni en hefði tekið S í kk. Ég er 165 cm og M í kvk útgáfunni er fín sídd fyrir mig. Þá er gott að boðið er upp á styttri útgáfu af buxunum ef hentar. Endurskinsrendur eru á buxunum sem hentar vel í skammdeginu.
Buxurnar eru einstaklega vel hannaðar með þægindi ofarlega í huga en þær hefta engar líkamshreyfingar enda vel teygjanlegar. Beltið í mittinu er mjög sterkbyggt, sylgjan sem krækist í beltið er mjög handhæg og auðvelt er að stækka beltið og minnka. Þar sem beltið gefur ekki eftir er hönnunin mjög heppileg þar sem ágætis borði af vel teygjanlegu efni er staðsettur fyrir neðan mittið til að auka þægindi fyrir mjaðmir. Mittið er vel staðsett fyrir minn smekk, rétt fyrir ofan nafla, og buxurnar haldast vel á sínum stað, sama hvað á dynur.
Á buxunum eru tveir góðir renndir hliðarvasar þar sem rennilásinn opnast að neðan og upp sem mér fannst mjög áhugavert en ég hef ekki kynnst því áður. Ég er búin að venjast því vel enda er oft auðveldara að ná taki og renna upp heldur en niður, t.d. með vettlingum eða ef fingur eru kaldir. Þar að auki er rúmgóður renndur vasi á hægra læri sem er mjög hentugur ef maður er með klifurbelti. Vasinn á kvk buxunum er ögn stærri en í kk útgáfunni.
Neðst á skálmunum er góður rennilás til að víkka buxurnar og þá eru tvær smellur neðst til að þrengja skálmarnar. Skálmarnar eru rúmgóðar og auðvelt er að koma þeim yfir göngu- eða skíðaskó eða bretta uppá þær t.d. í miklum hita eða fyrir vað. Þá er teygja neðst á skálmunum með krækju sem hentar vel til að festa skálmarnar við göngu- eða skíðaskó.
Efnið er skipt sem ég hélt í fyrstu að myndi trufla mig en eftir að ég prófaði þær í fyrsta skiptið hef ég ekki viljað fara úr þeim og ég finn ekki fyrir saumunum. Efnið er mjög teygjanlegt fyrir neðan mitti og aftan á hnjám og niður kálfann, en meiri styrking er á öðrum stöðum. Í seinasta ævintýri rann ég niður bratta hlíð af grjóti og drullu á rassinum en ekkert sá á buxunum. Þá er mesta styrkingin á hnjám og innan á neðanverðum skálmum sem hentar einstaklega vel fyrir skíðaiðkanir eða fjall- eða jöklagöngur með brodda. Efnið heldur sér ótrúlega vel en þrátt fyrir mjög mikið hnjask undanfarið og fjölda þvotta sér ekkert á buxunum.
Buxurnar voru prófaðar við íslenskar aðstæður, um síðsumar og haust, allt frá ágætis hita og niður fyrir frostmark, allt frá sólskini og stillu yfir í rigningu og mikinn vind. Þær voru prófaðar í léttum fjallgöngum, krefjandi fjallgöngum, jöklagöngum og ísklifri. Efnið er einstaklega vel einangrandi og heldur líkamshitanum vel í vindi en efnið andar jafnframt vel. Fyrir heitfenga manneskju eins og mig voru þær jafnvel of heitar fyrir mikla stillu í sumar. Auðvelt er að skella sér í aukalag innan undir í miklum kulda ef þess þarf þar sem buxurnar gefa vel eftir. Þegar það hefur rignt á þær hef ég haldið líkamshitanum vel enda með góðri einangrun þrátt fyrir að vera ekki þykkar, þær hrinda frá sér og hafa þornað mjög hratt þegar styttir upp.
Mér hefur fundist buxurnar henta mjög vel í alla þá útivist sem ég hef stundað seinustu vikurnar og ég hlakka til að nota þær í vetur.
Ég mæli eindregið með þessum virklega góðu og vönduðu heilsársbuxum.
Við þökkum Ganglera kærlega fyrir þátttökuna!
Skrifað af Rannveig Önnu
Þessar buxur var gjöf frá Ganglera Outfitters til prófunar og umsagnar